Stefnt er að því að opna dyr Hlemms - Mathallar í júní ef allt gengur að óskum. Einn af básunum tíu mun þó ekki hefja starfsemi strax heldur kemur ómótstæðilegur pop-up veitingastaður hans í stað sem aðeins verður starfræktur í sumar. Sá ber nafnið LeKock. 

Að baki LeKock eru þrír ungir og metnaðarfullir kokkar sem eiga sér þann draum að breyta götumatarmenningu Íslendinga. Þetta eru þeir Karl Óskar Smárason, Knútur Hreiðarsson og Markús Ingi Guðnason en allir eiga þeir sér bakgrunn í „fine-dining“ veitingum.

 Knútur Hreiðarsson hjá LeKock við eftirlit á Hlemmi

Knútur Hreiðarsson hjá LeKock við eftirlit á Hlemmi

Ein af áherslum LeKock er að skapa frumlega og vandaða rétti innblásna af hefðbundnum íslenskum heimilismat, oftar en ekki úr vannýttum hráefnum á borð við útlitsgallað grænmeti. Nefna má rétti á borð við íslenska vöfflu með cornflakes-kjúklingi og kleinuhring fylltan sætri súrmjólk og hjúpaðan með karamellu og hunangs-cheerios. 

 Nostalgískur kleinuhringur fylltur sætri súrmjólk og hjúpaður með karamellu og hunangs-cheerios

Nostalgískur kleinuhringur fylltur sætri súrmjólk og hjúpaður með karamellu og hunangs-cheerios

Að lokinni verunni á Hlemmi ætla kokkarnir þrír að koma á fót matarvagni sem fyrst um sinn verður staðsettur í Reykjavík. Síðar stendur til að ferðast með vagninn um allt land, versla við bændur og litla kaupmenn hverju landsvæði fyrir sig og aðlaga matseðilinn að hráefninu sem er þar í boði. Hægt er að fylgjast með ævintýrum þeirra á Fésbókarsíðu LeKock.

Veitingastaðurinn SKÁL! opnar síðan á Hlemmi í haust, en annar forsprakka hans, Gísli Matthías Auðunsson, verður upptekinn á Slippnum í Vestmannaeyjum í sumar, sem hann rekur ásamt fjölskyldu sinni.