Að gera fáa hluti en með pomp og pragt er göfugt og akkúrat það sem eldhugarnir hjá Bánh Mí hyggjast gera á Hlemmi. Eins og nafnið gefur til kynna er þar boðið upp á fyrirtaks bánh mí samlokur, en þær eru einskonar hliðarafurð nýlendustefnu Frakka í Víetnam á 19. og 20. öld þegar matarhefðir Frakklands og Víetnam skullu saman með látum.

Í dag eru bánh mí samlokur heimsþekktar enda einstaklega bragðgóðar og engu líkar. Eru þeir jafnvel til sem telja þetta afbrigði samlokunnar það besta sem fyrirfinnst á jörðu. Bánh Mí er í grunninn gómsæt og síbreytileg blanda af kjöti, paté, grænmeti og kryddjurtum á milli tveggja helminga baguette snittubrauðs sem bakað er úr hrísmjöli í stað venjulegs hveitis.

 Mynd: Thy Kjue Ly

Mynd: Thy Kjue Ly

Bánh Mí er í einum af tveimur götumatarbásum Hlemms (í hinum bjóða La Poblana upp á ekta mexíkóskt taco). Forsprakki Bánh Mí er Davíð Viet Quoc og fjölskylda en matreiðsla samlokanna hefur fylgt fjölskyldunni í margar kynslóðir. Uppskriftirnar koma margar hverjar frá langömmu Davíðs.