Við hafa bæst tveir nýir og þrælspennandi kaupmenn á Hlemm. Þetta eru SKÁL! og Micro Roast Te & Kaffi.

SKÁL! er tilraunakenndur smárétta- kokteila- og bjórbar með áherslu á íslenska matarhefð og hráefni. Að baki staðnum standa Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumaður og stofnandi Matar og Drykkjar í Reykjavík og Slippsins í Vestmannaeyjum og Björn Steinar Jónsson stofnandi Saltverks. SKÁL! mun leggja áherslu á frumlega kokteila, úrval íslenskra bjóra og frumlega smárétti með íslensku ívafi.

Micro Roast Te & Kaffi er lifandi og tilraunakenndur kaffibar með áherslu á nýristað og árstíðabundið kaffi, tilraunastarfsemi, fræðslu og vandað handbragð. Í boði verða hefðbundnir kaffidrykkir, kaffi lagað með ólíkum uppáhellingaraðferðum, kaldir kaffidrykkir og meðlæti. Ávallt verður notast við nýjasta og ferskasta kaffið sem sent verður beina leið á Hlemm úr brennsluofninum í Te & Kaffi á Aðalstræti 9.