Ísbúðin Ísleifur heppni er nýjasta viðbótin í hóp kaupmanna á Hlemmi. Að baki Ísleifi heppna eru feðgarnir Einar Ólafsson arkitekt og Gunnar Malmquist Einarsson matreiðslumaður, en þeir eru staðráðnir í að búa til eins góðan ís og mögulegt er.

Hjá Ísleifi heppna er blönduð ný ísblanda úr fyrsta flokks hráefnum á degi hverjum. Ísinn er síðan gerður sérstaklega fyrir hvern viðskiptavin á sjónrænan hátt með því að þeyta blönduna í hrærivélum og snöggfrysta ísinn með fljótandi köfnunarefni sem er við -196˚C hitastig. Fyrir vikið eru bragðgæði hráefnanna dregin betur fram en í hefðbundnum ís og útkoman er einstaklega ferskur, mjúkur og bragðgóður ís. Ísleifur heppni leggur auk þess sérstaka áherslu á góð hráefni og á meðal annars í samstarfi við súkkulaðigerðina Omnom Chocolate.

Sjálfir hafa feðgarnir þetta að segja um ísinn:

„Ísinn okkar er búinn til nýr á hverjum degi. Hann er síðan frystur með fljótandi köfnunarefni sem gerir það að verkum að það myndast næstum engir ískristallar. Ísinn verður silkimjúkur eins og mjúkt smjör og bráðnar undursamlega í munninum. Af því að við notumst við náttúrleg bragðefni þá hafa ísarnir okkar náttúrulega liti og endurspegla hin náttúrulegu hráefni sem eru í ísnum. Við trúum því að með því að leggja mikla vinnu við að búa til bragðtegundirnar okkar úr náttúrulegum hráefnum þá fáum við flotta áferð og djúp brögð úr hverri og einni bragðtegund. Brögðin geta staðið ein og sér eða beint ofan á ávaxtaköku, afmælisköku eða í ískexsamloku.
Það þarf fullt af fólki til að búa til ís frá grunni. Kúabændur, mjólkursölur, ávaxta- og grænmetisræktendur, framleiðendur, sölumenn og viðskiptamenn. Við trúum að með því að vera eins einlæg í innkaupum beint frá bónda og ræktendum þegar það er hægt þá fáum við betri gæði en annars. Með því að búa til ísinn á þann hátt sem við gerum þá krefst það meiri tíma og natni en í hefðbundinni ísgerð, en við teljum að það sé þess virði og vonum að þið kunnið líka að meta það eins og við.“