KRÖST: Hvað ef þú gætir sigrast á tímanum?

KRÖST: Hvað ef þú gætir sigrast á tímanum?

Hvað ef þú gætir sigrast á tímanum? 

Nú þegar óðfluga styttist í opnun Hlemms er tímabært að kynna níunda af tíu kaupmönnum á Hlemmi. Þetta er hinn spánýi KRÖST, grill og vínbar sem rekinn er af matreiðslumanninum Böðvari Lemacks, en hann sleit kokkaskónum á Argentínu steikhúsi og Grillmarkaðnum.

Á KRÖST er leikið á strengi tímans til að elda mat í hæsta gæðaflokki. Kokkarnir á KRÖST grilla og hægelda þurrhangið kjöt. Vínið þeirra hefur þroskast árum saman við réttar aðstæður í vínkjallara. KRÖST taka sér tímann sem þarf svo þú getir notið máltíðarinnar, einmitt þegar hún er fullkomin.

Bánh Mí: Heimsins besta samloka?

Bánh Mí: Heimsins besta samloka?

Að gera fáa hluti en með pomp og pragt er göfugt og akkúrat það sem eldhugarnir hjá Bánh Mí hyggjast gera á Hlemmi. Eins og nafnið gefur til kynna er þar boðið upp á fyrirtaks bánh mí samlokur, en þær eru einskonar hliðarafurð nýlendustefnu Frakka í Víetnam á 19. og 20. öld þegar matarhefðir Frakklands og Víetnam skullu saman með látum.

Í dag eru bánh mí samlokur heimsþekktar enda einstaklega bragðgóðar og engu líkar. Eru þeir jafnvel til sem telja þetta afbrigði samlokunnar það besta sem fyrirfinnst á jörðu. Bánh Mí er í grunninn gómsæt og síbreytileg blanda af kjöti, paté, grænmeti og kryddjurtum á milli tveggja helminga baguette snittubrauðs sem bakað er úr hrísmjöli í stað venjulegs hveitis.

 Mynd: Thy Kjue Ly

Mynd: Thy Kjue Ly

Bánh Mí er í einum af tveimur götumatarbásum Hlemms (í hinum bjóða La Poblana upp á ekta mexíkóskt taco). Forsprakki Bánh Mí er Davíð Viet Quoc og fjölskylda en matreiðsla samlokanna hefur fylgt fjölskyldunni í margar kynslóðir. Uppskriftirnar koma margar hverjar frá langömmu Davíðs.

Popup í sumar: Lekock

Popup í sumar: Lekock

Stefnt er að því að opna dyr Hlemms - Mathallar í júní ef allt gengur að óskum. Einn af básunum tíu mun þó ekki hefja starfsemi strax heldur kemur ómótstæðilegur pop-up veitingastaður hans í stað sem aðeins verður starfræktur í sumar. Sá ber nafnið LeKock. 

Að baki LeKock eru þrír ungir og metnaðarfullir kokkar sem eiga sér þann draum að breyta götumatarmenningu Íslendinga. Þetta eru þeir Karl Óskar Smárason, Knútur Hreiðarsson og Markús Ingi Guðnason en allir eiga þeir sér bakgrunn í „fine-dining“ veitingum.

 Knútur Hreiðarsson hjá LeKock við eftirlit á Hlemmi

Knútur Hreiðarsson hjá LeKock við eftirlit á Hlemmi

Ein af áherslum LeKock er að skapa frumlega og vandaða rétti innblásna af hefðbundnum íslenskum heimilismat, oftar en ekki úr vannýttum hráefnum á borð við útlitsgallað grænmeti. Nefna má rétti á borð við íslenska vöfflu með cornflakes-kjúklingi og kleinuhring fylltan sætri súrmjólk og hjúpaðan með karamellu og hunangs-cheerios. 

 Nostalgískur kleinuhringur fylltur sætri súrmjólk og hjúpaður með karamellu og hunangs-cheerios

Nostalgískur kleinuhringur fylltur sætri súrmjólk og hjúpaður með karamellu og hunangs-cheerios

Að lokinni verunni á Hlemmi ætla kokkarnir þrír að koma á fót matarvagni sem fyrst um sinn verður staðsettur í Reykjavík. Síðar stendur til að ferðast með vagninn um allt land, versla við bændur og litla kaupmenn hverju landsvæði fyrir sig og aðlaga matseðilinn að hráefninu sem er þar í boði. Hægt er að fylgjast með ævintýrum þeirra á Fésbókarsíðu LeKock.

Veitingastaðurinn SKÁL! opnar síðan á Hlemmi í haust, en annar forsprakka hans, Gísli Matthías Auðunsson, verður upptekinn á Slippnum í Vestmannaeyjum í sumar, sem hann rekur ásamt fjölskyldu sinni.

Jómfrúin stækkar

Jómfrúin stækkar

Jómfrúna á Lækjargötu þekkja flestir Íslendingar enda hefur hún verið starfrækt þar í meira en tvo áratugi. Við opnun Hlemms í sumar verða kaflaskil hjá Jómfrúnni sem kemur þá á fót sínu fyrsta útibúi.

Jómfrúin á Hlemmi verður ögn smærri en sú á Lækjargötu en hún lætur það ekki aftra sér í að bjóða upp á fyrirtaks smurbrauð, danskan öl og ligeglad stemningu. 

Hjá Jómfrúnni skiptir hefðin öllu máli, smurbrauð skal vera fallega skreytt, topphlaðið og matarmikið. Jómfrúin hefur einstakt lag á að tengja saman íslenskt gæðahráefni við dönsku hefðina og handbragðið sem tilheyrir smurbrauðskúnstinni.

 Jómfrúin er strangheiðarlegt fyrirbæri. 

Jómfrúin er strangheiðarlegt fyrirbæri. 

Markaðs-stjóri óskast

Markaðs-stjóri óskast

Við leitum að framúrskarandi markaðsstjóra. Markaðsstjóri hefur umsjón með markaðsmálum, viðburðahaldi og verkefnum tengdum daglegum rekstri mathallarinnar. 

Starfslýsing 

 • Umsjón með markaðmálum, þ.m.t. samfélagsmiðlum.
 • Skipulagning viðburða og útimarkaða.
 • Samstarf og samskipti við kaupmenn.
 • Samskipti við verktaka, þjónustuaðila og viðskiptavini.
 • Önnur tilfallandi verkefni tengd daglegum rekstri. 

Hæfniskröfur

 • Haldbær reynsla og þekking á markaðsmálum og viðburðahaldi er krafa. 
 • Reynsla af rekstri er kostur.
 • Reynsla af verkefnastjórn og hæfni til að sinna mörgum verkefnum samtímis.
 • Reynsla og þekking á markaðssetningu á samfélagsmiðlum.
 • Áhugi á mat, matarmenningu og viðburðahaldi.
 • Mikið sjálfstæði og frumkvæði í starfi.
 • Góð samskiptahæfni, tölvukunnátta og íslensku- og enskukunnátta. 

Um er að ræða fullt starf. Gert er ráð fyrir að ráða í stöðuna snemmsumars og að viðkomandi hefji störf í sumar eða haust, eftir samkomulagi.

Umsóknarfrestur er til og með 17. apríl 2017.

Umsóknir berist á hlemmur@hlemmurmatholl.is. Allar frekari upplýsingar veitir Bjarki Vigfússon í síma 693 3958 / bjarki@hlemmurmatholl.is

 

Taco Santo: Ekta mexíkanskur götumatur

Taco Santo: Ekta mexíkanskur götumatur

Nýjasta viðbótin í röð kaupmanna á Hlemmi er Taco Santo hvar borinn verður fram ekta mexíkanskur götumatur. Taco Santo er rekið af Juan Carlos Peregrina Guarneros og fjölskyldu hans, en hann kemur frá Mexíkóborg og gerir taco eins og mamma hans og amma kenndu honum.

Um er að ræða mjúkar og glútenlausar maíspönnukökur sem eru útbúnar á staðnum og bornar fram með grænmeti, kjöti eða sjávarfangi. Hver og einn getur valið úr ferskum og framandi chilisósum (og auðvitað verður vegan valkostur). Mexíkanar kreista iðulega límónu yfir matinn og það gera Taco Santo auðvitað líka.

Snöggfrystur ís úr úrvals hráefnum

Ísbúðin Ísleifur heppni er nýjasta viðbótin í hóp kaupmanna á Hlemmi. Að baki Ísleifi heppna eru feðgarnir Einar Ólafsson arkitekt og Gunnar Malmquist Einarsson matreiðslumaður, en þeir eru staðráðnir í að búa til eins góðan ís og mögulegt er.

Hjá Ísleifi heppna er blönduð ný ísblanda úr fyrsta flokks hráefnum á degi hverjum. Ísinn er síðan gerður sérstaklega fyrir hvern viðskiptavin á sjónrænan hátt með því að þeyta blönduna í hrærivélum og snöggfrysta ísinn með fljótandi köfnunarefni sem er við -196˚C hitastig. Fyrir vikið eru bragðgæði hráefnanna dregin betur fram en í hefðbundnum ís og útkoman er einstaklega ferskur, mjúkur og bragðgóður ís. Ísleifur heppni leggur auk þess sérstaka áherslu á góð hráefni og á meðal annars í samstarfi við súkkulaðigerðina Omnom Chocolate.

Sjálfir hafa feðgarnir þetta að segja um ísinn:

„Ísinn okkar er búinn til nýr á hverjum degi. Hann er síðan frystur með fljótandi köfnunarefni sem gerir það að verkum að það myndast næstum engir ískristallar. Ísinn verður silkimjúkur eins og mjúkt smjör og bráðnar undursamlega í munninum. Af því að við notumst við náttúrleg bragðefni þá hafa ísarnir okkar náttúrulega liti og endurspegla hin náttúrulegu hráefni sem eru í ísnum. Við trúum því að með því að leggja mikla vinnu við að búa til bragðtegundirnar okkar úr náttúrulegum hráefnum þá fáum við flotta áferð og djúp brögð úr hverri og einni bragðtegund. Brögðin geta staðið ein og sér eða beint ofan á ávaxtaköku, afmælisköku eða í ískexsamloku.
Það þarf fullt af fólki til að búa til ís frá grunni. Kúabændur, mjólkursölur, ávaxta- og grænmetisræktendur, framleiðendur, sölumenn og viðskiptamenn. Við trúum að með því að vera eins einlæg í innkaupum beint frá bónda og ræktendum þegar það er hægt þá fáum við betri gæði en annars. Með því að búa til ísinn á þann hátt sem við gerum þá krefst það meiri tíma og natni en í hefðbundinni ísgerð, en við teljum að það sé þess virði og vonum að þið kunnið líka að meta það eins og við.“

Tveir nýir kaupmenn: Nýristað kaffi og íslenskur smáréttabar

Við hafa bæst tveir nýir og þrælspennandi kaupmenn á Hlemm. Þetta eru SKÁL! og Micro Roast Te & Kaffi.

SKÁL! er tilraunakenndur smárétta- kokteila- og bjórbar með áherslu á íslenska matarhefð og hráefni. Að baki staðnum standa Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumaður og stofnandi Matar og Drykkjar í Reykjavík og Slippsins í Vestmannaeyjum og Björn Steinar Jónsson stofnandi Saltverks. SKÁL! mun leggja áherslu á frumlega kokteila, úrval íslenskra bjóra og frumlega smárétti með íslensku ívafi.

Micro Roast Te & Kaffi er lifandi og tilraunakenndur kaffibar með áherslu á nýristað og árstíðabundið kaffi, tilraunastarfsemi, fræðslu og vandað handbragð. Í boði verða hefðbundnir kaffidrykkir, kaffi lagað með ólíkum uppáhellingaraðferðum, kaldir kaffidrykkir og meðlæti. Ávallt verður notast við nýjasta og ferskasta kaffið sem sent verður beina leið á Hlemm úr brennsluofninum í Te & Kaffi á Aðalstræti 9.